Casey Stoney, knattspyrnustýra kvennaliðs Manchester United í knattspyrnu, mun láta af störfum þegar tímabilinu lýkur í sumar.
Ensku úrvalsdeildinni er lokið, þar sem Chelsea varð meistari og Man. Utd lenti í fjórða sæti, og missti þannig naumlega af Meistaradeildarsæti.
Þó deildinni sé lokið er ennþá nokkrum umferðum ólokið í ensku bikarkeppninni. 16-liða úrslitin hefjast á sunnudaginn, þar sem Man. Utd tekur á móti Leicester City. Stoney mun því stýra liðinu á meðan það er enn í keppninni.
Stoney hefur stýrt Man. Utd síðustu þrjú tímabil. „Þetta er rétti tíminn til þess að draga sig í hlé og leyfa einhverjum öðrum að koma inn og stýra liðinu á næsta stigi vegferðarinnar sem það er á,“ sagði hún í samtali við Sky Sports.