Cristiano Ronaldo skoraði eitt marka Juventus í 3:1 sigri gegn Sassuolo í Seriu A á Ítalíu í kvöld.
Ronaldo hefur þá skorað hundrað mörk fyrir Juventus í 131 leik í efstu deild á Ítalíu. Ronaldo nær þessu þegar langt er liðið á hans þriðja tímabil hjá félaginu en enginn annar leikmaður hefur náð að skora 100 mörk fyrir Juventus á svo skömmum tíma.
Meistararnir í Inter unnu Roma 3:1 og grannarnir í AC Milan rótburstuðu Tórínó á útivelli 7:0. AC Milan og Atalanta eru með 75 stig í 2. og 3. sæti. Napolí og Juventus koma næst með 73 og 72 stig.
Bologna tapaði fyrir Genoa á heimavelli 0:2 og var Andri Fannar Baldursson á varamannabekknum hjá Bologna sem er í 11. sæti.