Þeir 42.000 stuðningsmenn Ajax sem eru ársmiðahafar hjá hollenska knattspyrnufélaginu eiga von á athyglisverðum glaðningi á næstu dögum.
Í byrjun mánaðarins tryggði Ajax sér hollenska meistaratitilinn í 35. skipti og hafa forsvarsmenn félagsins brugðið á það ráð að bræða verðlaunagripinn, stærðarinnar silfurskjöld, í 42.000 stjörnur sem verða svo sendar til ársmiðahafanna.
Þar með fá stuðningsmenn beinlínis hluta af sigurlaunum félagsins. Vegna kórónuveirufaraldursins hafa þeir ekki getað mætt á Amsterdam Arena til þess að berja hetjur sínar augum.
Þar sem stuðningsmennirnir keyptu ársmiða þrátt fyrir að mega ekki fara á völlinn, fannst forsvarsmönnum Ajax þetta vera kjörinn þakklætisvottur vegna stuðnings þeirra utan vallar á tímabilinu.