Hinn níu ára gamli Jordan Banks, dyggur stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, varð fyrir eldingu þegar hann var að leika sér í fótbolta á leikvelli í heimaborg sinni Blackpool.
Hann var fluttur með hraði á spítala í Blackpool en lést þar skömmu síðar.
Banks vakti athygli fyrr á árinu þegar hann hljóp tæplega 50 kílómetra á 10 dögum fyrir góðgerðarsamtök í minningu frænda síns, sem féll fyrir eigin hendi, og safnaði þar 3.000 sterlingspundum, rúmlega hálfri milljón króna.
Í yfirlýsingu lýsti fjölskylda Banks honum sem „umhyggjusömum, tillitssömum, gjafmildum og elskulegum“.
„Í gær [í fyrradag] stöðvaðist veröld okkar. Við misstum okkar björtustu stjörnu, fallega strákinn okkar Jordan. Hláturinn hans, smitandi bros, hans gylltu krullur, hann var okkur allt,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.
James Milner, leikmaður Liverpool, er á meðal þeirra sem minnast Banks með hlýhug. Milner hafði fyrr á árinu sett sig í samband við Banks og sent honum hamingjuóskir í formi myndskeiðs þegar pilturinn kláraði að hlaupa kílómetrana 50.
„Einstakur strákur tekinn allt of snemma,“ skrifaði Milner á twitter-aðgangi sínum.