Robert Lewandowski, framherji Bayern München, skoraði fyrra mark liðsins í 2:2-jafntefli við Freiburg í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Markið var það fertugasta sem Pólverjinn skorar á leiktíðinni og jafnaði hann markamet Gerd Müller yfir flest mörk skoruð á einu tímabili í efstu deild Þýskalands.
Lewandowski kom Bayern yfir með marki úr víti á 26. mínútu, áður en Manuel Gulde jafnaði á 29. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Leroy Sane kom Bayern aftur yfir á 53. mínútu, en Christian Günter átti lokaorðið því hann jafnaði fyrir Freiburg á 81. mínútu og þar við sat.
Lewandowski fær eitt tækifæri í viðbót til að bæta metið því Bayern mætir Augsburg eftir viku í lokaumferðinni. Bayern tryggði sér fyrir nokkru Þýskalandsmeistaratitilinn.
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg unnu 2:0-heimasigur á Werder Bremen þar sem Rani Khedira og Daniel Caligiuri skoruðu mörkin. Alfreð byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 75. mínútu. Augsburg er í 12. sæti.