Framherjinn síungi Zlatan Ibrahimovic mun ekki geta tekið þátt með sænska landsliðinu á EM í næsta mánuði. Ástæðan fyrir því eru hnémeiðsli sem hann hlaut í 3:0 sigri AC Milan gegn Juventus í ítölsku A-deildinni um síðustu helgi.
Fyrir rúmum tveimur mánuðum tilkynnti hinn 39 ára gamli Zlatan að hann myndi snúa aftur í sænska landsliðið eftir fimm ára hlé.
Hann náði að spila tvo leiki með landsliðinu í marsmánuði í undankeppni HM 2022, þar sem hann lagði upp sigurmarkið í 1:0 sigri gegn Georgíu og lagði einnig upp mark í 3:0 sigri gegn Kósóvó.
Í dag staðfesti hins vegar Janne Andersson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar, að hann gæti ekki verið með á EM, sem hefst eftir tæpan mánuð, vegna hnémeiðslanna sem hann hlaut síðastliðinn sunnudag.