Skotlandsmeistarar Rangers í knattspyrnu karla náðu þeim eftirtektarverða árangri á tímabilinu að fara taplausir í gegnum skosku úrvalsdeildina.
Undir stjórn Stevens Gerrards vann liðið sér inn 102 stig í 38 leikjum og vann hvern einasta heimaleik sem það spilaði.
32 sigrar unnust og gerði liðið sex jafntefli. Það sem meira er um vert fékk liðið aðeins á sig 13 mörk í leikjunum 38.
Skotlandsmeistaratitillinn, sá fyrsti hjá Rangers í áratug, var tryggður eftir 31 leik í upphafi mars, slíkir voru yfirburðir liðsins allt tímabilið.