Viðar Örn Kjartansson náði stórum áfanga í dag þegar hann skoraði fyrir Vålerenga gegn Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Þetta er hundraðasta markið sem Viðar skorar í deildakeppni erlendis á ferlinum sem atvinnumaður en hann hóf þann feril einmitt með liði Vålerenga árið 2014 og sló þá í gegn með því að skora 25 mörk fyrir Óslóarfélagið og varð langmarkahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.
Frá þeim tíma hefur Viðar leikið með Jiangsu Sainty í Kína, Malmö í Svíþjóð, Maccabi Tel Aviv í Ísrael, Rostov í Rússlandi, Hammarby í Svíþjóð, Rubin Kazan í Rússlandi, Yeni Malatyaspor í Tyrklandi og loks aftur með Vålerenga frá miðju síðasta tímabili.
Hann hefur nú skorað 35 mörk í Noregi, 9 í Kína, 21 í Svíþjóð, 32 í Ísrael, eitt í Rússlandi og tvö í Tyrklandi. Öll þessi mörk hefur Viðar skorað í efstu deild viðkomandi landa.
Áður en Viðar gerðist atvinnumaður skoraði hann 53 deildamörk á Íslandi fyrir Selfoss, ÍBV og Fylki, þar af 25 í úrvalsdeildinni. Deildamörkin hans í heild sinni eru því orðin 153 talsins í 350 leikjum á ferlinum.
Viðar er aðeins fimmti Íslendingurinn frá upphafi sem skorar 100 mörk í deildakeppni erlendis á ferlinum. Þar er Heiðar Helguson enn langmarkahæstur með 133 mörk en síðan koma Eiður Smári Guðjohnsen og Alfreð Finnbogason með 107 mörk hvor og Arnór Guðjohnsen sem skoraði 104 deildamörk erlendis á sínum ferli.