Heimir hættur með Al-Arabi

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Ljósmynd/Al-Arabi

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, er hættur störfum sem þjálfari katarska félagsins Al-Arabi eftir að hafa stjórnað því í hálft þriðja ár.

Al-Arabi tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum í dag að Heimir væri hættur störfum en samkomulag hefði verið gert milli hans og félagsins að endurnýja ekki samninginn.

Heimir hefur birt kveðju til félagsins og stuðningsmanna þess á samfélagsmiðlum Al-Arabi og þakkar þar öllum hjá félaginu og í kringum það fyrir stuðninginn undanfarin hálft þriðja ár.

„Þetta hefur verið reynsla sem ég mun búa að og muna það sem ég á eftir ólifað," segir Heimir m.a. í bréfinu.

„Það var áskorun að takast á við verkefni í öðrum menningarheimi en það hefur þroskað mig sem persónu og sem þjálfara. Ég hef verið einstaklega heppinn að hafa unnið með svona mörgu góðu fólki hjá Al-Arabi. Ég óska Saoud Aljassim og starfsliði hans alls hins besta í því erfiða verkefni að reisa þetta félag til fyrri metorða.

Þeir eiga alla virðingu skilið fyrir óeigingjarnt starf fyrir félagið og ég þakka þeim allan þann stuðning sem þeir sýndu mér og mínu þjálfaraliði. Félagið er heppið að eiga slíka starfskrafta. Þjálfaraliðið mitt hefur verið frábært og lagt hart að sér frá fyrsta degi og á mikið hrós skilið.

Mest af öllu vil ég óska leikmönnum liðsins velgengni í framtíðinni. Þar eru margir ótrúlegur persónuleikar og karakterar sem munu ávallt eiga stað í mínu hjarta. Næsti þjálfari Al-Arabi er heppinn. Hann fær hóp af heiðarlegum atvinnumönnum sem eru tilbúnir til að berjast og leggja hart að sér fyrir félagið."

Maður á alltaf að reyna að skila af sér sínu liði á betri stað þegar verki lýkur. Ég vona og trúi því að þannig sé með Al-Arabi. Félagið mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og ég óska félaginu gæfuríkrar framtíðar."

Al-Arabi hafnaði í sjöunda sæti í úrvalsdeildinni í Katar á nýliðnu tímabili. Liðið endaði einnig í sjöunda sæti í fyrra og í sjötta sæti á fyrsta tímabili Heimis, 2018-19, en þá tók hann við liðinu á miðju tímabili. Bestum árangri undir stjórn Heimis hefur liðið náð í bikarmótunum, sem eru nokkur í Katar, en þar hefur Al-Arabi tapað tveimur úrslitaleikjum undir hans stjórn.

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er leikmaður Al-Arabi og þá hefur Freyr Alexandersson verið aðstoðarþjálfari Heimis undanfarna mánuði. Bjarki Ólafsson hefur ennfremur verið í þjálfarateymi hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka