Jóhannes Kristinn Bjarnason er í leikmannahóp sænska knattspyrnufélagsins Norrköping sem mætir Varberg í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Þetta er í fyrsta sinn sem Jóhannes er í leikmannahóp sænska liðsins en hann gekk til liðs við félagið frá KR í febrúar á þessu ári. Hann er aðeins sextán ára gamall og lék einn úrvalsdeildarleik með KR síðasta haust, þá fimmtán ára.
„Jóhannes hefur verið valinn í nítján manna leikmannahóp liðsins í fyrsta sinn,“ segir meðal annars á heimasíðu Norrköping.
Ísak Bergmann Jóhannesson er einnig í hópnum en Ari Freyr Skúlason er að glíma við meiðsli og er ekki í hópnum að þessu sinni.
Norrköping hefur farið vel af stað á tímabilinu og er með 11 stig í öðru sæti deildarinnar eftir fyrstu sex leiki sína.