Opinn fyrir endurkomu til Spánar

Xavi hefur stýrt Al-Sadd í Katar frá árinu 2019.
Xavi hefur stýrt Al-Sadd í Katar frá árinu 2019. AFP

Xavi Hernández, knattspyrnustjóri Al-Sadd í Katar er sagður opinn fyrir því að snúa aftur til Spánar og taka við liði Barcelona. Það er spænski miðillinn Sport sem greinir frá þessu.

Xavi, sem er 41 árs gamall, lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2019 og tók í beinu framhaldi við Al-Sadd í Katar.

Hann er uppalinn hjá Barcelona og lék 767 leiki fyrir félagið í öllum keppnum frá árinu 1998 til 2015 en þá gekk hann til liðs við Al-Sadd í Katar þar sem hann lék síðustu fjögur ár ferilsins.

Miðjumaðurinn fyrrverandi var sterklega orðaður við stjóratöðuna hjá Barcelona síðasta sumar áður en Ronald Koeman tók við liðinu en Xavi afþakkaði starfið.

Nú er öldin önnur hjá Barcelona og nýr forseti tekinn við félaginu, Joan Laporta, en hann og Xavi þekkjast vel eftir tíma sinn saman hjá Barcelona.

Ronald Koeman gæti misst starfið í sumar eftir vonbrigðatímabil á Spáni en Barcelona er sem stendur í þriðja sæti spænsku 1. deildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu og á ekki lengur möguleika á því að verða Spánarmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert