Heimir Hallgrímsson gæti tekið við svissneska knattspyrnufélaginu Servette en hann lét af störfum sem þjálfari Al-Arabi í gær.
Það er 433.is sem greinir frá þessu en Servette er staðsett í Genf og leikur í svissnesku úrvalsdeildinni.
Félagið var stofnað árið 1890 og er eitt sögufrægasta knattspyrnufélag Sviss en það hefur sautján sinnum orðið landsmeistari, síðast árið 1999. Þá er félagið þriðja sigursælasta lið landsins frá upphafi á eftir Grasshopper og Basel.
Servette hefur sjö sinnum orðið bikarmeistari í landinu, síðast árið 2001, en félagið er sem stendur í þriðja sæti svissnesku úrvalsdeildarinnar og mun ljúka keppni í því sæti.
Heimir, sem er 53 ára gamall, stýrði kvenna- og karlaliði ÍBV áður en hann gerðist aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins.
Hann tók svo alfarið við liðinu eftir EM 2016 en lét af störfum tveimur árum síðar og tók við Al-Arabi í Katar þar sem gengið hefur verið upp og ofan.