Hollendingurinn á leið til Barcelona

Memphis Depay er lykilmaður í hollenska landsliðinu.
Memphis Depay er lykilmaður í hollenska landsliðinu. AFP

Memphis Depay, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins Lyon, er á leið til Barcelona en það er Fabrizio Romano, fréttamaður hjá Sky Sports, sem greinir frá þessu.

Depay, sem er 27 ára gamall, hefur verið orðaður við Barcelona í allan vetur en samningur hans við franska félagið rennur út í sumar.

Sóknarmaðurinn hefur leikið með Lyon frá árinu 2016 þar sem hann hefur skrað 76 mörk og lagt upp önnur 53 í 177 leikjum fyrir félagið.

Depay sló fyrst í gegn með PSV í heimalandi sínu en gekk til liðs við Manchester United árið 2015 þar sem hann náði sér aldrei á strik

Romano greinir frá því að Barcelona sé búið að ná samkomulagi við leikmanninn um kaup og kjör og að tilkynnt verði um félagaskiptin á næstu vikum.

Depay hefur verið lykilmaður í hollenska landsliðinu undanfarin ár og skorað 23 mörk í 62 leikjum fyrir þjóð sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert