Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, er í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir jafntefli gegn Linköping á útivelli í dag, 1:1.
Eftir fimm umferðir er Rosengård með fullt hús á toppnum, 15 stig, en Kristianstad er ósigrað með 11 stig, Häcken og Linköping eru með 10 stig hvort.
Sif Atladóttir lék allan leikinn með Kristianstad í dag en Sveindís Jane Jónsdóttir er frá keppni vegna meiðsla. Norska landsliðskonan Frida Maanum kom Linköping yfir á 37. mínútu en finnska landsliðskonan Jutta Rantala jafnaði fyrir Kristianstad á 56. mínútu úr vítaspyrnu.