Suður-Ameríkukeppnin tekin af Kólumbíu

Mikið hefur verið mótmælt í Kólumbíu síðustu vikur.
Mikið hefur verið mótmælt í Kólumbíu síðustu vikur. AFP

Kólumbía mun ekki halda Suður-Ameríkukeppnina í fótbolta í sumar eins og til stóð vegna mótmæla í landinu síðustu vikur og mánuði. Þess í stað fer mótið einungis fram í Argentínu, en þjóðirnar áttu að halda mótið saman.

Mótmælendur hafa m.a. truflað leiki í Meistaradeild Suður-Ameríku með þeim afleiðingum að leikir sem áttu að fara fram í Kólumbíu hafa verið færðir til Paragvæ og Ekvador.

Íbúar landsins eru afar ósáttir við ákvörðun stjórnvalda um skattahækkanir og breytingar á heilbrigðiskerfinu, sem síðan hafa verið dregin til baka. Það gerði hins vegar lítið til að sporna við mótmælum sem hafa haldið áfram með krafti. 

Keppnin átti að fara fram í fyrra en var frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar, rétt eins og öðrum stórmótum á borð við Ólympíuleikana og Evrópumót karla og kvenna í fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert