Bætti 49 ára gamalt met gegn Alfreð

Robert Lewandowski fagnaði markinu vel og innilega.
Robert Lewandowski fagnaði markinu vel og innilega. AFP

Robert Lewandowski skoraði sitt 41. deildarmark í þýsku 1. deildinni í fótbolta er hann gerði fimmta mark Bayern München í 5:2-sigri á Alfreð Finnbogasyni og félögum í Augsburg í lokaumferð deildarinnar í dag. 

Með markinu bætti Lewandowski 49 ára gamalt met goðsagnarinnar Gerd Müller sem skoraði 40 mörk tímabilið 1971/72. Í lok leiks fagnaði Bayern enn einum Þýskalandsmeistaratitlinum, en nokkuð er síðan liðið gulltryggði sér sigurinn í deildinni. 

Bayern komst í 4:0 í fyrri hálfleik með sjálfsmarki og mörkum frá Serge Gnabry, Joshua Kimmich og Kingsley Coman. André Hahn og Florian Niederlechner minnkuðu muninn í 4:2 í seinni hálfleik áður en Lewandowski skoraði markið sem fer í sögubækurnar. 

Alfreð Finnbogason byrjaði á varamannabekk Augsburg og kom inn á sem varamaður á 76. mínútu. Augsburg endar í 13. sæti deildarinnar með 36 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert