Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi verður ekki með Barcelona sem heimsækir Eibar í lokaumferð spænsku efstu deildarinnar í dag. Hann gæti því hafa spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.
Börsungar hafa að litlu að keppa eftir 2:1-tap gegn Celta Vigo í síðustu umferð en liðið á ekki lengur möguleika á spænska meistaratitlinum. Barcelona situr í 3. sæti með 76 stig fyrir lokaumferðina, fjórum stigum á eftir Real Madríd og sjö á eftir toppliði Atlético Madríd.
Félagið hefur staðfest að Messi verður ekki með en Argentínumaðurinn fékk frí frá æfingu í gær og getur nú aðeins hvílt sig fyrir Ameríkubikarinn sem hefst í næsta mánuði. Messi verður samningslaus í sumar og búist er við því að hann yfirgefi félagið en hann ætlaði að róa á önnur mið fyrir ári.