Hélt að Lewandowski myndi ekki ná metinu

Robert Lewandowski skoraði 41 deildarmark á tímabilinu.
Robert Lewandowski skoraði 41 deildarmark á tímabilinu. AFP

Robert Lew­andowski skoraði sitt 41. deild­ar­mark í þýsku 1. deild­inni í knattspyrnu í lokaumferðinni og bætti þar með 49 ára gamalt markamet.

Pólverjinn skoraði fimmta mark Bayern München í 5:2-sigri á Al­freð Finn­boga­syni og fé­lög­um í Augs­burg í lokaum­ferð deild­ar­inn­ar í gær til að komast í 41 mark. Goðsögnin Gerd Müller skoraði 40 mörk tímabilið 1971/72 og hefur það met staðið óhaggað þar til nú og var þjálfari Bayern farinn að halda að þeim pólska myndi ekki takast að slá það.

„Þetta er ótrúlegt afrek, fyrir hann sjálfan og fyrir liðið. Markið lét bíða eftir sér og ég sagði við aðstoðarþjálfarann að ég ætti ekki von á því að hann myndi ná metinu, en maðurinn er markaskorari!“ sagði Flick við blaðamenn en Bayern var einnig að fagna enn einum Þýskalandsmeistaratitlinum í lok leiks.

Leikurinn var sá síðasti undir stjórn Flick en hann stýrði Bayern í 18 mánuði, vann þýsku deildina tvisvar og Meistaradeildina einu sinni. Julian Nagelsmann tekur við liðinu í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert