Lille er franskur meistari í fótbolta eftir 2:1-útisigur á Angers í kvöld. Titillinn er sá fyrsti hjá Lille í áratug og sá fjórði alls. Lille endar með 83 stig, einu stigi meira en PSG sem vann Brest 2:0 í kvöld.
Jonathan David kom Lille yfir á 10. mínútu og Burak Ylmaz bætti við öðru marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks úr víti. Angelo Fulgini minnkaði muninn fyrir Angers í uppbótartíma og þar við sat.
Neymar brenndi af vítaspyrnu fyrir PSG gegn Brest en það kom ekki að sök því Romain Faivre skoraði sjálfsmark á 37. mínútu og Kylian Mbappé gulltryggði sigurinn á 71. mínútu. Það dugði hins vegar ekki til að vinna fjórða franska meistaratitilinn í röð.