Hjörtur Hermannsson og liðsfélagar hans í Brøndby tryggðu sér í dag danska meistaratitilinn með 2:0 sigri gegn Nordsjælland í lokaumferð úrvalsdeildarinnar þar í landi.
Lasse Vigen Christensen kom Brøndby yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks, Anis Ben Slimane tvöfaldaði forystuna snemma í síðari hálfleiknum og þar við sat.
Brøndby vann sinn fyrsta meistaratitil síðan árið 2005.
Hjörtur lék nánast allan leikinn í vörn Brøndby; var tekinn af velli á annarri mínútu uppbótartíma.
Um er að ræða annan titil Hjartar með liðinu, en hann varð bikarmeistari með því árið 2018.
Midtjylland, sem vann meistaratitilinn á síðasta ári, vann á sama tíma sinn leik 4:0 gegn AGF. Liðið þurfti að treysta á að Brøndby myndi misstíga sig í von um að vinna titilinn annað árið í röð.
Það gerðist þó ekki og Midtjylland endar einu stigi á eftir meisturum Brøndby.
Mikael Neville Anderson lék allan leikinn á miðju Midtjylland og Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á sem varamaður fyrir AGF á 72. mínútu.