Mikill fjöldi kórónuveirusmita er kominn upp í Færeyjum og hefur öllum leikjum úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þar í landi því verið frestað um óákveðinn tíma.
Sextán smit greindust í Færeyjum gær og áður höfðu sjö smit greinst dagana á undan, sem voru þau fyrstu sem greindust þar innanlands í yfir tvo mánuði.
Íslenska karlalandsliðið á að spila við það færeyska í vináttulandsleik ytra 4. júní næstkomandi en nú er óvíst hvort sá leikur geti farið fram.
Ekki er búið að taka neina ákvörðun þar að lútandi en það hvernig smitrakningu miðar í Færeyjum á næstu dögum mun leiða í ljós hvort hægt verður að spila landsleikinn.