Hættir tveimur dögum eftir að hafa unnið deildina

Christophe Galtier, fráfarandi knattspyrnustjóri Lille, fagnar með leikmönnum sínum eftir …
Christophe Galtier, fráfarandi knattspyrnustjóri Lille, fagnar með leikmönnum sínum eftir að franski deildarmeistaratitillinn var í höfn á sunnudag. AFP

Christophe Galtier, knattspyrnustjóri Lille, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu aðeins tveimur dögum eftir að hafa stýrt liðinu til óvænts deildarmeistaratitils í frönsku 1. deildinni.

Galtier, sem hefur stýrt Lille í fjögur ár, segir það vera langan tíma hjá knattspyrnustjórum og að því sé komið gott af samstarfinu við félagið í bili. „Þetta er rétti tíminn til þess að fara,“ sagði hann.

Lille skákaði hinu forríka París Saint-Germain og endaði einu stigi á undan Parísarliðinu, sem hafði unnið frönsku deildina undanfarin þrjú tímabil. Endaði Lille með 83 stig og PSG 82 stig.

Var þetta fyrsti deildartitill Lille í áratug og aðeins sá fjórði í sögu félagsins.

Galtier hefur verið orðaður við lausar stjórastöður hjá Lyon og Nice í frönsku 1. deildinni og hjá Napoli í ítölsku A-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert