Í liði vikunnar í Noregi

Samúel Kári Friðjónsson hefur spilað vel í fyrstu leikjum tímabilsins …
Samúel Kári Friðjónsson hefur spilað vel í fyrstu leikjum tímabilsins í Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður norska knattspyrnufélagsins Viking, er í liði vikunnar hjá norska miðlinum NTB fyrir frammistöðu sína í 3:1-sigri gegn Lilleström í norsku úrvalsdeildinni um helgina.

Samúel Kári lagði upp tvö fyrstu mörk Viking í fyrri hálfleik, með gríðarlöngum innköstum, áður en hann innsiglaði sigur Viking með marki á 83. mínútu. 

Samúel Kári er eini leikmaðurinn í liði vikunnar sem fær átta í einkunn fyrir sína frammistöðu en aðrir leikmenn liðsins fá allir sjö.

Samúel Kári hefur spilað vel með liðinu sínu Viking í upphafi tímabilsins en liðið er með 6 stig eftir fjóra leiki í fjórða sæti deildarinnar.

Miðjumaðurinn, sem er 25 ára gamall, snéri aftur til Noregs í október 2020 þegar hann gekk til liðs við Viking eftir hálft tímabil með Paderborn í þýsku 1. deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert