Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að það angri hann ekki neitt að landi hans, Spánverjinn, Antonio Mateu Lahoz, muni dæma úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu næstkomandi laugardag.
Guardiola og Lahoz hafa í gegnum tíðina eldað grátt silfur saman. Guardiola var gífurlega ósáttur við Lahoz þegar hann gaf Sergio Agüero gult spjald fyrir leikaraskap í leik gegn Monaco í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2017, þar sem Man City datt að lokum út eftir samanlagt 6:6 jafntefli og færri útivallarmörk skoruð.
Ári síðar, í átta liðum úrslitum keppninnar gegn Liverpool, varð Guardiola trítilóður þegar mark sem Leroy Sané skoraði var ranglega dæmt af vegna rangstöðu. Rak Lahoz þá Guardiola upp í stúku og eftir leikinn sagði knattspyrnustjórinn að Lahoz finndist „gaman að vera öðruvísi.“
Á blaðamannafundi í gær fyrir úrslitaleikinn gegn Chelsea á laugardaginn sagðist Guardiola þó ekkert vera að hugsa um hver myndi dæma leikinn.
„Ég hef ekki hugsað um Lahoz í eina sekúndu. Mér gæti ekki verið meira sama. Ég hef svo mikla trú á liði mínu. Þið getið ekki ímyndað hversu mikla trú ég hef á liðinu mínu og því sem við þurfum að gera,“ sagði knattspyrnustjórinn knái.