„Mér gæti ekki verið meira sama“

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City mæta lærisveinum …
Pep Guardiola og lærisveinar hans í Manchester City mæta lærisveinum Thomas Tuchel í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að það angri hann ekki neitt að landi hans, Spánverjinn, Antonio Mateu Lahoz, muni dæma úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu næstkomandi laugardag.

Guardiola og Lahoz hafa í gegnum tíðina eldað grátt silfur saman. Guardiola var gífurlega ósáttur við Lahoz þegar hann gaf Sergio Agüero gult spjald fyrir leikaraskap í leik gegn Monaco í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2017, þar sem Man City datt að lokum út eftir samanlagt 6:6 jafntefli og færri útivallarmörk skoruð.

Ári síðar, í átta liðum úrslitum keppninnar gegn Liverpool, varð Guardiola trítilóður þegar mark sem Leroy Sané skoraði var ranglega dæmt af vegna rangstöðu. Rak Lahoz þá Guardiola upp í stúku og eftir leikinn sagði knattspyrnustjórinn að Lahoz finndist „gaman að vera öðruvísi.“

Á blaðamannafundi í gær fyrir úrslitaleikinn gegn Chelsea á laugardaginn sagðist Guardiola þó ekkert vera að hugsa um hver myndi dæma leikinn.

„Ég hef ekki hugsað um Lahoz í eina sekúndu. Mér gæti ekki verið meira sama. Ég hef svo mikla trú á liði mínu. Þið getið ekki ímyndað hversu mikla trú ég hef á liðinu mínu og því sem við þurfum að gera,“ sagði knattspyrnustjórinn knái.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert