Knattspyrnumaðurinn Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, er að tapa kapphlaupi sínu við tímann um að verða leikfær fyrir úrslitaleik liðsins við Villarreal í Evrópudeildinni í Gdansk í Póllandi annað kvöld.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Man Utd, sagði á blaðamannafundi í gær að Maguire myndi í mesta lagi skokka á æfingu dagsins í dag, sem var að ljúka rétt í þessu, á keppnisvellinum í Gdansk.
Simon Stone, íþróttafréttamaður hjá BBC, greinir hins vegar frá því að Maguire hafi ekki tekið neinn þátt á æfingunni. Fyrirliðinn hafi ekki farið í æfingagalla, aðeins rætt við fólk á hliðarlínunni og farið svo aftur inn í búningsklefa.
Hverfandi líkur eru því á því að hann geti verið með í úrslitaleiknum annað kvöld.
Maguire meiddist á ökkla í 3:1 útisigri Man Utd gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni snemma í mánuðinum og missti af síðustu fjórum leikjum liðsins í deildinni.
Var hans sárt saknað þar sem tveir leikjanna töpuðust og einn endaði með jafntefli en varalið Man Utd vann þó 2:1 sigur í lokaumferðinni gegn Wolverhampton Wanderers.