Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við þýska stórliðið Schalke eftir að hafa verið keyptur frá Darmstadt fyrir óuppgefna upphæð.
Bæði lið spila í B-deildinni í Þýskalandi á næsta tímabili eftir að Schalke, sem hefur átt í erfiðleikum undanfarin ár, féll úr þýsku 1. deildinni á nýafstöðnu tímabili.
„Á meðal þeirra gæða sem Victor býr yfir sem varnartengiliður eru harðar tæklingar hans, mikill líkamsstyrkur, hraði og yfirburðir í loftinu. Við trúum því einnig að Victor verði mikilvægur hlekkur í liðinu utan vallar,” sagði Peter Knäbel, stjórnarmeðlimur hjá Schalke, við heimasíðu félagsins.
Guðlaugur Victor er sömuleiðis spenntur fyrir vistaskiptunum. „Ég vil vera leiðtogi bæði innan og utan vallar. Við munum koma til með að þurfa að þróa og byggja upp liðið á glænýjan hátt og ég vil spila mína rullu í því með reynslu minni, svo við getum unnið eins marga leiki og mögulegt er,“ sagði hann við heimasíðu Schalke.
Guðlaugur Victor, sem er þrítugur, hefur leikið með Darmstadt frá árinu 2019 en hann hefur komið víða við á atvinnumannaferlinum og leikið á Englandi, í Skotlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Svíþjóð, Danmörku, Sviss og loks Þýskalandi. Þá hefur hann leikið 26 A-landsleiki og skorað í þeim sex mörk.
Grikkinn Dimitrios Grammozis er knattspyrnustjóri Schalke og hann þekkir vel til Guðlaugs Victors þar sem Grammozis stýrði Darmstadt áður en hann tók við Schalke.