Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madrid, var í skýjunum um helgina eftir að Atlético Madrid hafði tryggt sér spænska meistaratitilinn en liðið endaði með 86 stig, tveimur stigum meira en Real Madrid, á toppi spænsku 1. deildarinnar.
Atlético Madrid vann 2:1-útisigur gegn Real Valladolid í lokaumferðinni á laugardaginn síðasta en Luis Suárez skoraði sigurmark leiksins á 67. mínútu eftir að Atlético hafði lent 0:1-undir í leiknum.
Suárez gekk til liðs við Atlético Madrid frá Barcelona síðasta sumar en Ronald Koeman, stjóri Barcelona, hafði ekki áhuga á því að vinna með Úrúgvæanum og ákvað að losa sig við hann.
Suárez reyndist örlagavaldurinn í titilbaráttu Atlético en hann skoraði sigurmarkið í síðustu tveimur leikjum tímabilsins en Simeone var spurður að því á blaðamannafundi um helgina hvað hefði ráðið úrslitum í deildinni.
„Barcelona gaf okkur Luis Suárez,“ sagði Simeone en hann var þá spurður hvort hann væri með skilaboð til Börsunga.
„Ég elska ykkur. Takk kærlega fyrir mig og að gefa okkur leikmanninn sem réð úrslitum í baráttunni um meistaratitilinn,“ bætti argentínski stjórinn við.