Antonio Conte, knattspyrnustjóri Inter Mílanó á Ítalíu, mun láta af störfum hjá félaginu á næstu dögum. Það er La Gazzetta dello Sport sem greinir frá þessu.
Conte, sem er 51 árs gamall, hefur stýrt liði Inter frá árinu 2019 en hann stýrði liðinu til sigurs í ítölsku A-deildinni á nýliðinu keppnistímabili.
Þetta var fyrsti sigur Inter í ítölsku A-deildinni í ellefu ár en liðið varð síðast Ítalíumeistari árið 2010.
Samkvæmt La Gazzetta dello Sport er Conte afar ósáttur með forseta félagsins, Steven Zhang, sem ætlar að selja nokkrar af stærstu stjörnum félagsins í sumar og skera niður launakostnað.
Conte hafði vonast til þess að geta byggt ofan á þann árangur sem náðist á tímabilinu en nú er ljóst að af því verður ekki og hann ætlar sér því að róa á önnur mið.