Villarreal vann United í ótrúlegri vítakeppni

Villarreal vann Evrópudeildina í kvöld eftir sigur á liði Manchester United eftir vítaspyrnukeppni í Gdansk í Póllandi. Lokatölur eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1:1 en Villarreal hafði betur í vítaspyrnukeppninni 11:10.

Allir 22 leikmenn liðanna tóku spyrnu og fyrsta spyrnan í vítaspyrnukeppninni sem klikkaði var spyrna David de Gea, markmanns Manchester United. Geronimo Rulli varði spyrnuna og tryggði Villarreal sigurinn.

Í fyrri hálfleik var Manchester United mun meira með boltann en náði ekki að skapa sér nægilega góð færi. Aftur á móti voru leikmenn Villarreal sprækir í skyndisóknum sínum og föstum leikatriðum. Eina markið í fyrri hálfleik kom einmitt úr föstu leikatriði en þá tók Daniel Parejo aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Manchester United og fann Gerard Moreno sem kom boltanum í netið með góðu skoti á 29. mínútu leiksins.

Í seinni hálfleik byrjuðu leikmenn Manchester United með látum og náðu að jafna metin á 55. mínútu en þar var á ferðinni Edinson Cavani en boltinn barst til hans eftir skot Marcus Rashford sem varnarmenn Villarreal náðu að komast fyrir. Eftir þetta mark voru leikmenn Manchester United mun líklegri til að skora en hvorugt liðið náði að skora og því fór leikurinn í framlengingu.

Í framlengingunni voru leikmenn Villarreal sprækari en ekki komu þeir boltanum í netið þannig að leikurinn endaði í vítaspyrnukeppni.

Þessi vítaspyrnukeppni fer í sögurnar fyrir það að vera lengsta vítaspyrnukeppni sögunnar í Evrópudeildunum.

Þetta er fyrsti stóri titill Villarreal. Liðið vann reyndar Inter Toto-keppnina árið 2003 og 2004 en sú keppni hefur ekki verið talin hingað til sem ein af þessum alvöru Evrópukeppnum. Það má því búast við miklum fagnaðarlátum á Spáni í kvöld.

Villarreal 12:11 Man. Utd opna loka
121. mín. Raúl Albiol (Villarreal) skorar úr víti 8-7 - Þetta var öruggt eins og allar hinar spyrnurnar. Setur þetta í hornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert