Markvörður meistaranna til AC Milan

Memphis Depay og Mike Maignan eigast við í leik Lyon …
Memphis Depay og Mike Maignan eigast við í leik Lyon og Lille í apríl. AFP

Franski markvörðurinn Mike Maignan er genginn til liðs við ítalska knattspyrnufélagið AC Milan frá Frakklandsmeisturum Lille. Þetta tilkynnti ítalska félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Maignan er ætlað að fylla skarðið sem Gianluigi Donnarumma skilur eftir sig hjá félaginu en hann mun yfirgefa AC Milan í sumar þegar samningur hans rennur út.

Franski markvörðurinn, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir fimm ára samning við AC Milan en hann kostar í kringum tíu milljónir punda.

Maignan átti ár eftir af samningi sínum við Lille en Milan hafnaði í öðru sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert