Bodø/Glimt, Noregsmeistarinn í fótbolta frá því á síðustu leiktíð, fer vel af stað á þessari leiktíð því liðið er í toppsæti norsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. Alfons Sampsted átti góðan leik í 2:0-heimasigrinum á Haugesund í kvöld.
Vefsíðan Sofascore, sem heldur utan um einkunnargjöf og tölfræði, gaf Alfons 8,5 fyrir frammistöðu sína í leiknum, hæstu einkunn allra.
Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn með Víking sem fagnaði 2:1-heimasigri á Mjøndalen. Viking hefur farið ágætlega af stað og er í fjórða sæti með 9 stig.
Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn fyrir Sandefjord sem mátti þola tap á heimavelli fyrir Rosenborg, 0:1. Hólmar Örn Eyjólfsson var ekki í leikmannahópi Rosenborg.
Brynjólfur Darri Willumsson og félagar í Kristiansund unnu Sarpsborg á útivelli, 1:0. Brynjólfur kom inn á sem varamaður á 65. mínútu. Emil Pálsson var allan tímann á varamannabekk Sarpsborg.
Þá lék Valdimar Þór Ingimundarson fyrstu 65 mínúturnar með Strømsgodset sem gerði 1:1-jafntefli við Tromsø. Ari Leifsson var allan tímann á varamannabekk Strømsgodset og Adam Örn Arnarson allan tímann á bekknum hjá Tromsø.