Allegri tekinn við Juventus

Massimilano Allegri skrifaði undir fjögurra ára samning við Juventus.
Massimilano Allegri skrifaði undir fjögurra ára samning við Juventus. AFP

Massimiliano Allegri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Juventus til næstu fjögurra ára. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Allegri, sem er 53 ára gamall, tekur við liðinu af Andrea Pirlo sem var rekinn í morgun en stjóraskiptin hafa legið í loftinu alla vikuna.

Allegri þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa stýrt Juventus frá 2014 til 2019 og gerði hann liðið að Ítalíumeisturum í fimmgang.

Þá fór hann með félagið í úrslit Meistaradeildarinnar árið 2015 þar sem liðið tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik í Berlín og í úrslitaleikinn 2017 þar sem Juventus tapaði fyrir Real Madrid í Cardiff.

Gengi Juventus á síðustu leiktíð olli miklum vonbrigðum en liðið féll úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hafnaði í fjórða sæti ítölsku A-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka