Massimiliano Allegri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Juventus til næstu fjögurra ára. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Allegri, sem er 53 ára gamall, tekur við liðinu af Andrea Pirlo sem var rekinn í morgun en stjóraskiptin hafa legið í loftinu alla vikuna.
Allegri þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa stýrt Juventus frá 2014 til 2019 og gerði hann liðið að Ítalíumeisturum í fimmgang.
Þá fór hann með félagið í úrslit Meistaradeildarinnar árið 2015 þar sem liðið tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik í Berlín og í úrslitaleikinn 2017 þar sem Juventus tapaði fyrir Real Madrid í Cardiff.
Gengi Juventus á síðustu leiktíð olli miklum vonbrigðum en liðið féll úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hafnaði í fjórða sæti ítölsku A-deildarinnar.