Luis Suárez reyndist örlagavaldurinn þegar Atlético Madrid varð spænskur meistari í knattspyrnu á dögunum en hann gekk til liðs við Atlético frá Barcelona síðasta sumar.
Suárez skoraði sigurmark í síðustu tveimur leikjum tímabilsins og tryggði Atlético Madrid efsta sæti deildarinnar eftir baráttu við Real Madrid í lokaumferðunum.
Framherjinn, sem er 34 ára gamall, var sár og svekktur þegar hann yfirgaf Barcelona enda var hann lykilmaður á Nývangi í sex ár.
„Ég fékk engin skilaboð frá stjórnarmönnum Barcelona eftir að við tryggðum okkur titilinn,“ sagði Suárez í samtali við El Partidazo.
„Ég var ansi nálægt því að senda þeim öllum mynd af mér með bikarinn,“ bætti leikmaðurinn við.