Diego Martínez, knattspyrnustjóri spænska félagsins Granada, hefur sagt starfi sínu lausu eftir þrjú árangursrík ár.
Martínez tók við liðinu sumarið 2018 og leiddi liðið upp úr spænsku B-deildinni með því að lenda í öðru sæti á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn.
Tímabilið á eftir var Granada spútnik-lið spænsku 1. deildarinnar þegar það endaði í 7. sæti og tryggði sér þar með sæti í Evrópukeppni, Evrópudeildinni, í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Þar komst liðið alla leið í átta liða úrslit keppninnar, þar sem liðið sló til að mynda ítalska stórliðið Napoli út í 32-liða úrslitum. Í átta liða úrslitum mætti liðið ofjarli sínum, Manchester United, sem fór alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
Í spænsku 1. deildinni á nýafstöðnu tímabili endaði liðið í 9. sæti.
Forsvarsmenn Granada reyndu allt hvað þeir gátu til þess að reyna að sannfæra Martínez um að stýra liðinu áfram en Martínez var ekki haggað; hann vill nýja áskorun.