Jasper Cillessen, markvörður spænska knattspyrnufélagsins Valencia og hollenska landsliðsins, hefur greinst með kórónuveiruna.
Hollenska landsliðið býr sig nú undir EM, sem hefst eftir tvær vikur, og eru þetta því sérlega vondar fréttir þar sem Cillessen er nú í einangrun og má ekki æfa með liðinu þar til hann fær neikvæða niðurstöðu úr skimun og í kjölfarið grænt ljós til þess að byrja að æfa og keppa á ný.
Cillessen er aðal markvörður hollenska liðsins og í stuttri yfirlýsingu frá hollenska knattspyrnusambandinu segir að um leið og hann megi koma til móts við hópinn muni sambandið sjá til þess að það Cillessen geri það.
Holland spilar sinn fyrsta leik á EM gegn Úkraínu þann 13. Júní og má Frank de Boer, þjálfari landsliðsins, gera breytingu á hópi sínum ef þörf krefur allt fram að þeirri dagsetningu.