Rekinn frá Juventus

Andrea Pirlo hefur verið sagt upp störfum.
Andrea Pirlo hefur verið sagt upp störfum. AFP

Andrea Pirlo hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri Juventus á Ítalíu. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að Pirlo yrði rekinn á næstu dögum en gengi Juventus á tímabilinu var ekki gott.

Liðið féll úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og þá hafnaði liðið í fjórða sæti ítölsku A-deildarinnar og rétt tókst að tryggja sér Meistaradeildarsæti í lokaumferðinni.

Juventus hafði unnið ítölsku A-deildina níu tímabil í röð áður en Pirlo tók við liðinu síðasta sumar en liðið varð ítalskur bikarmeistari á tímabilinu.

Massimiliano Allegri mun taka við Juventus á nýjan leik samkvæmt ítölskum fjölmiðlum en hann stýrði liðinu frá 2014 til 2019 og gerði liðið að Ítalíumeisturum í öll skiptin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert