Knattspyrnumaðurinn og landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson gekk í gegnum mikla erfiðleika á síðasta ári.
Guðlaugur, sem er þrítugur að árum, stimplaði sig rækilega inn í íslenska landsliðið og var einn besti leikmaður liðsins á árinu 2020.
Lífið reyndist honum hins vegar erfitt utan vallar en hann missti móður sína í lok nóvember á síðasta ári og var hann nálægt því að snúa heim til Íslands og semja við félag í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni.
Hann er á mun betri stað í dag andlega og skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við hið sögufræga félag Schalke í Þýskalandi.
„Síðasta tímabil var mjög sérstakt í alla staði,“ sagði Guðlaugur í samtali við mbl.is
„Ég byrja tímabilið í banni og svo spila ég annan leikinn með Darmstadt. Ég missi af þriðja leiknum út af landsliðsverkefni. Ég næ svo tveimur leikjum með Darmstadt áður en ég fer í annað landsliðsverkefni. Allt í allt voru þetta einhverjir fjórir leikir fyrir áramót sem ég spila með Darmstadt á meðan ég tók þátt í sex leikjum með íslenska landsliðinu sem var skrítin upplifun enda vanari því að leika mun fleiri leiki með félagsliði mínu en landsliðinu.
Ég meiðist svo um haustið og er frá í einhverja þrjá mánuði allt í allt því ég var eitthvað frá keppni líka eftir að ég missti mömmu. Ég gengst undir tvær aðgerðir á þessum tíma og ofan á þetta allt saman var ég að ganga í gegnum andlega erfiðleika út af stráknum mínum sem var að flytja með barnsmóður minni til Kanada.
Þetta var alveg steiktur tími því ég kveið því að sjá á eftir stráknum til Kanada, meiðist, við komumst ekki á EM, ég fer í tvær aðgerðir og missi svo móður mína. Þetta gerist allt á einhverjum þriggja vikna kafla og ég get alveg viðurkennt það að tilveran hjá mér hrundi þarna á ákveðnum tímapunkti.
Ég var með sálfræðinginn minn á sjálfvali í símanum hjá mér og ég talaði við hann á hverjum einasta degi í einhverja þrjá mánuði. Ég er henni gríðarlega þakklátur og hún hjálpaði mér ótrúlega mikið, sem og fjölskylda mín og vinir. Á sama tíma hef ég líka ákveðinn verkfæri og tól sem ég hef tileinkað mér í gegnum tíðina í minni baráttu við minn fíknisjúkdóm og í minni sjálfsuppbyggingu,“ sagði Guðlaugur sem á að baki 26 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark.
Miðjumaðurinn íhugaði alvarlega að snúa aftur til Íslands og spila í Pepsi Max-deildinni í sumar.
„Ég bað umboðsmanninn minn um að taka stöðuna á klúbbunum heima og þessi fréttaflutningar á Íslandi, um að ég væri á heimleið, átti alveg rétt á sér. Á sama tíma fór það mikið í taugarnar á mér að þetta skildi enda í fjölmiðlum en Ísland er lítið samfélag og ef eitthvað svona spyrst út er það fljótt að fara út um allt. Ef einhver spurði mig út í þetta á sínum tíma þá neitaði ég bara fyrir allt, líka þegar fjölmiðlar höfðu samband við mig.
Það sem ég sá fyrir mér var að geta verið heima á Íslandi í sex mánuði og svo verið sex mánuði með stráknum mínum, hvar svo sem hann væri í heiminum. Það er bara þannig í atvinnumennsku að frelsið er ekki neitt. Ég var því tilbúinn að gefa atvinnumennskuna upp á bátinn til þess að stjórna mínu lífi sjálfur. Ég var ekki tilbúinn að tjá mig um þetta á þeim tíma en í dag er ég á betri stað og er loksins tilbúinn að tala um þennan erfiða tíma.“
Móðir Guðlaugs, Ásta Marta Róbertsdóttir, lést 27. nóvember síðastliðinn eftir langa baráttu við alkóhólisma.
„Við mamma vorum í ágætis sambandi á síðasta ári. Hún var mest megnis edrú og á fínum stað þannig séð. Samskiptin voru þess vegna nokkuð góð en ég heyrði ekkert í henni þremur vikum áður en hún lést því hún hafði fallið um það leyti. Samband okkar síðustu ár var kannski ekki eins og maður vildi hafa það en ég hélt alltaf í vonina um að hún myndi koma til baka og yrði til staðar sem bæði móðir og amma. Hún elskaði strákinn minn mikið og hennar heitasta ósk var að sigrast á sinni fíkn og vera til staðar fyrir börnin sín. Því miður þá er sjúkdómurinn eins og hann er og þetta er ekkert grín að eiga við.
Ég hafði heldur aldrei upplifað það að missa einhvern nákominn mér. Ég missti æskuvin minn fyrir nokkrum árum sem var mjög erfitt en að missa móður sína var alveg nýtt fyrir mér. Ég datt ofan í ákveðið svarthol og hugurinn fór að leita í einhverja auðvelda leið út úr því. Það fyrsta sem mér datt í hug þá var að pakka öllu ofan í tösku, hætta í atvinnumennsku og flytja heim til þess að vera í kringum ættingja mína og vini þegar mamma lést.“
Guðlaugur hefur sjálfur glímt við alkóhólisma en hann ákvað að hætta að drekka árið 2014.
„Mamma var Ásta mamma mín þegar hún var edrú en fíkillinn var alltaf til staðar í henni og hann var ekki móðir mín. Þetta er alvarlegur sjúkdómur og það var oft sem ég skildi ekki af hverju hún tók þær ákvarðanir sem hún tók en þegar um fíknisjúkdóm er að ræða er ekki hægt að horfa á hlutina sem bara svarta og hvíta.
Þessi sjúkdómur er algjört helvíti fyrir fólk og ég hef meiri skilning á honum í dag. Hún var ekki hún sjálf þegar fíkillinn tók völdin. Ég fyrirgef henni og á sama tíma get ég tekið á móti hennar afsökunarbeiðnum í dag. Ég er stoltur af henni fyrir baráttuna sem hún háði en því miður náði sjúkdómurinn yfirhöndinni. Mín helsta huggun er sú að hún er á betri stað og ekki alltaf í þessu eilífa stríði.“
Guðlaugur, sem hefur glímt við þunglyndi í gegnum tíðina, átti frábært tímabil með Darmstadt en liðið tapaði einungis þremur leikjum af sextán á seinni hluta tímabilsins á meðan það fékk bara 18 stig fyrir áramót þegar Guðlaugur lék lítið með liðinu.
„Ég hef unnið mikið í sjálfum mér, bæði innan og utan vallar, með hjálp sálfræðings og íþróttasálfræðings. Ég er með ákveðin verkfæri sem ég hef notað til þess að hjálpa mér andlega í fótboltanum. Fyrir Ungverjaleikinn sem dæmi þá var ég búinn að nefna það við nokkra félaga mína að ég ætlaði að hætta í atvinnumennsku því þar var komin upp ákveðin vanlíðan hjá mér. Ég er ekki að segja að ég sé fullkominn en ég kann á hausinn á mér og sjálfan mig.
Mér hefur því tekist að setja einhvernvegin allt í fótboltann þegar ég er að spila. Þegar það hins vegar flautað af þá fer maður stundum í sama pakkann en ég hef líka litið á þessi svarthol, sem maður hefur dottið í í gegnum tíðina, sem ákveðna blessun líka. Það er nefnilega alltaf ljós við enda ganganna, líka í svartasta þunglyndinu. Ég setti mikla orku í að nota mína vanlíðan til þess að hvetja sjálfan mig til dáða.
Ég átti mjög gott tímabil með Darmstadt eftir áramót og ég er gríðarlega stoltur af sjálfum mér fyrir að hafa náð að rífa mig í gang og hjálpa liðinu mínu að enda í sjöunda sæti B-deildarinnar. Það var því ákveðin rúsína í pylsuendanum að vera keyptur til Schalke eftir tímabilið og þá komum við kannski aftur inn á þetta með ljósið við enda ganganna.“
Frá því að Guðlaugur hætti að drekka hefur leiðin legið upp á við hjá honum en hann varð meðal annars bikarmeistari með Zürich í Sviss, árið 2018, áður en hann var keyptur til Þýskalands af Darmstadt.
„Ég horfi öðruvísi á lífið og fótboltann í dag. en fyrir einhverjum árum. Við eigum bara eitt líf og maður þarf að gera því besta úr þeim spilum sem maður er með á hendi hverju sinni. Ég er búinn að vera atvinnumaður í fótbolta síðan árið 2007. Þegar allt kemur til alls var ég ekki tilbúinn að gefa það upp á bátinn sí, þrátt fyrir mikla rússíbanareið. Þetta hefur verið hark og ég er búinn að spila með mörgum liðum á ferlinum. Það er búið að henda mér í burtu héðan og þaðan, kaupa mig hingað og þangað, og maður er búinn að vera inn og út úr landsliðinu í gegnum tíðina. Þetta hefur verið mín saga á ferlinum.
Ég er orðinn þrítugur núna og mig langar að gefa meira í og enda ferilinn á eins góðum nótum og ég get. Ég veit hvað ég get, hvar ég get spilað og í hvaða gæðaflokki. Ég veit líka að ég get verið lykilmaður í íslenska landsliðinu á næstu árum. Á vil líka taka það sérstaklega fram að ég er gríðarlega þakklátur þjálfurunum og félögunum heima á Íslandi sem voru tilbúin að finna lausnir til að láta þetta ganga upp og semja við mig. Ég fór í einhverjar viðræður hér á landi en ég er mjög ánægður með þá ákvörðun mína að fara ekki heim til Íslands.“
Guðlaugur er þakklátur sínum nánustu fyrir stuðninginn undanfarna mánuði.
„Ég tel mig eiga einhver fjögur, fimm eða sex ár eftir í fótboltanum og ég vonast auðvitað til þess að vera þannig staddur, fjárhagslega sem dæmi, að geta boðið syni mínum upp á betra líf þegar þar að kemur og skórnir fara á hilluna. Ég vil einfaldlega ekki horfa til baka og sjá eftir einhverju.
Strákurinn minn elskar fótbolta og hann er mjög stoltur af mér, ég veit það. Ég veit að fjölskylda mín og vinir eru það líka. Móðir mín vildi alltaf að ég myndi vera besta útgáfan af sjálfum mér. Sama hvar hún var stödd lífinu, þá lét hún mig alltaf vita þegar hún las eða sá einhverja umfjöllun tengda mér í fjölmiðlum.
Ég veit að hún var og verður alltaf stolt af mér og fylgist með mér að ofan, bætti Guðlaugur við í samtali við mbl.is.