Fullt hús stiga eftir sjö marka sigur

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur áttu stórleik í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur áttu stórleik í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingalið Rosengård er með fullt hús stiga á toppi sænsku efstu deildar kvenna í knattspyrnu eftir 7:0-stórsigur á útivelli gegn AIK í dag. Þá sneri Sveindís Jane Jónsdóttir aftur til leiks með Kristianstad.

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn í vörn Rosengård sem skoraði þrjú mörk á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Liðið er sem fyrr segir á toppi deildarinnar með sjö sigra í sjö leikjum og markatöluna 18:1. Hallbera Guðný Gísladóttir spilaði allan leikinn í vörn AIK sem fékk slæma útreið, liðið hefur unnið einn af fyrstu sjö leikjum sínum.

Þá tapaði Íslendingalið Kristianstad sínum fyrsta leik á tímabilinu, 3:1 á útivelli gegn Hammarby. Sif Atladóttir lék allan leikinn í vörn gestanna en Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn á 63. mínútu og spilaði sinn fyrsta leik í nokkrar vikur eftir meiðsli. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar lið Kristianstad sem situr í 4. sæti, með þrjá sigra og þrjú jafntefli eftir sjö umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka