Hefur ekki rætt við Barcelona og Real Madríd

Joachim Löw hættir störfum sem landsliðsþjálfari Þýskalands í sumar.
Joachim Löw hættir störfum sem landsliðsþjálfari Þýskalands í sumar. AFP

Joachim Löw mun hætta sem landsliðsþjálfari Þýskalands í knattspyrnu eftir Evrópumeistaramótið í sumar en hann hefur þjálfað landsliðið síðan 2006.

Þýski þjálfarinn er 61 árs gamall en hann stýrði landsliðinu til sigurs á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014. Hann sagði frá því í vor að hann ætlaði að hætta með liðið í sumar og hafa fjölmiðlar margir hverjir velt því fyrir sér hvort Löw muni þá taka við einu af stóru félagsliðum Evrópu.

„Það hefur enginn haft samband við mig og ég hef nú þegar sagt að ég vilji taka mér frí,“ hefur þýski miðillinn Sport1 eftir Löw. „Ég er búinn að vera hérna í 17 ár, ég þarf að komast aðeins í burtu.“

Zinedine Zidane hætti sem þjálfari spænska stórliðsins Real Madríd á dögunum og þá er Ronald Koeman sagður valtur í sessi hjá Barcelona. Spænskir fjölmiðlar veltu því fyrir sér nýlega hvort forráðamenn félaganna hefðu sett sig í samband við Þjóðverjann en svo er greinilega ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka