Útlit er fyrir að Simone Inzaghi taki við ítalska meistaraliði Inter í knattspyrnu eftir að Antonio Conte lét óvænt af störfum hjá félaginu á dögunum.
Conte, sem er 51 árs gamall, hefur stýrt liði Inter frá árinu 2019 en hann stýrði liðinu til sigurs í ítölsku A-deildinni í fyrsta sinn síðan 2010 á nýliðinu keppnistímabili. Á miðvikudaginn síðasta hætti hann svo með liðið og daginn eftir yfirgaf Inzaghi lið Lazio.
Inzaghi þjálfaði Lazio í þrjú ár og gerði liðið að ítölskum bikarmeistara árið 2019 en félagið staðfesti brotthvarf hans á fimmtudaginn. The Athletic segir frá því að Inzaghi hafa áhuga á því að byggja upp nýtt lið hjá meisturunum en samkvæmt La Gazzetta dello Sport ætlar forseti félagsins, Steven Zhang, að selja nokkrar af stærstu stjörnum félagsins í sumar og skera niður launakostnað.
Conte hafði vonast til þess að geta byggt ofan á þann árangur sem náðist á tímabilinu og var ekki tilbúinn að hefja nýja endurbyggingu á liðinu. Inzaghi verður því líklegast maðurinn sem tekur það verkefni að sér.