Arnór Ingvi Traustason og félagar hans í New England Revolution eru komnir með fimm stiga forystu í Austurdeild bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu eftir sigur gegn Cincinnati á útivelli í kvöld, 1:0.
Arnór var í byrjunarliðinu, eins og í öllum öðrum leikjum til þessa á tímabilinu eftir að hann kom til félagsins í apríl, og spilaði fyrstu 65 mínúturnar. Adam Buksa skoraði sigurmark New England á 70. mínútu og liðið er nú með 17 stig á toppi Austurdeildar eftir átta leiki. Orlando City kemur næst með 12 stig.
Guðmundur Þórarinsson og félagar í New York City eru síðan í þriðja sæti með 11 stig en þeir unnu Los Angeles 2:1 á útivelli í Kaliforníu í gærkvöld. Guðmundur sat á varamannabekknum allan tímann en hann hafði verið í byrjunarliðinu í öllum sex leikjunum á tímabilinu fram að því.