Wolfsburg er þýskur bikarmeistari kvenna í knattspyrnu eftir 1:0-sigur á Eintracht Frankfurt í framlengdum úrslitaleik í dag.
Alexandra Jóhannsdóttir byrjaði á varamannabekk Frankfurt en var skipt inn á 41. mínútu þegar liðsfélagi hennar fór af velli vegna meiðsla. Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar.
Snemma í framlengingunni fékk markvörður Wolfsburg rautt spjald en engu að síður tókst liðinu að skora sigurmark á 116. mínútu til að verða bikarmeistari, sjöunda árið í röð.