Bo Henriksen, fyrrverandi leikmaður ÍBV, Fram og Vals, verður næsti þjálfari danska knattspyrnuliðsins Midtjylland en hann tekur við af Brian Priske sem er farinn frá félaginu til að taka við Antwerpen í Belgíu.
Henriksen lék hér á landi á árunum 2005 og 2006, fyrst með Val og síðan Fram á fyrra tímabilinu en með Eyjamönnum tímabilið 2006. Hann skoraði sjö mörk í átján leikjum í úrvalsdeildinni og skoraði einnig fyrir bæði Val og Fram í bikarkeppninni árið 2005. Hann lék einmitt með Fram þegar liðið tapaði 0:1 fyrir Val í úrslitaleik bikarkeppninnar þá um haustið.
Áður lék hann með dönsku liðunum OB, Frem og Herfölge og með ensku liðunum Kidderminster Harriers og Bristol Rovers.
Henriksen hefur síðan gert það gott sem þjálfari í Danmörku, fyrst í sjö ár með lið Brönshöj sem hann kom upp í B-deildina og hélt því þar í efri hlutanum í nokkur ár. Síðan í sex ár með lið Horsens en hann hætti með það á síðasta ári.