Óvissa með De Bruyne

Hugað að meiðslum Kevin De Bruyne á vellinum í Porto.
Hugað að meiðslum Kevin De Bruyne á vellinum í Porto. AFP

Óvíst er hvort Kevin De Bruyne, miðjumaður Manchester City, geti leikið með Belgum í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem hefst eftir ellefu daga.

De Bruyne fékk þungt högg í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Porto á laugardagskvöldið þegar hann og Antonio Rüdiger, varnarmaður Chelsea, rákust harkalega saman eftir klukkutíma leik. Hann nefbrotnaði og fékk áverka á augnbotn.

Roberto Martínez landsliðsþjálfari Belga var ósáttur við atvikið og sagði að um ásetning hjá Rüdiger hefði verið að ræða. „Hann átti að fá rautt spjald,“ sagði Martínez.

Belgar mæta Rússum í fyrsta leik sínum 12. júní og mæta síðan Dönum og Finnum í B-riðli keppninnar.

Það yrði mikið áfall fyrir Belga að geta ekki nýtt krafta De Bruyne í lokakeppninni en hann er talinn einn af bestu miðjumönnum heims um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka