Brasilíumenn hafa tekið að sér að halda Ameríkubikarinn í knattspyrnu, Copa America, með þrettán daga fyrirvara, en í morgun var tilkynnt að Argentína gæti ekki haldið keppnina eins og til stóð vegna slæms ástands í landinu vegna kórónuveirufaraldursins.
Áður hafði Kólumbía misst keppnina frá sér vegna óeirða í landinu en Kólumbía og Argentína áttu að halda hana í sameiningu.
Í tilkynningu frá brasilíska knattspyrnusambandinu segir að leikstaðir keppninnar verði kynntir eftir nokkra klukkutíma.
Þjóðirnar tíu í Suður-Ameríku taka þátt í keppninni en Ástralía og Katar verða ekki með eins og upphaflega stóð til.