Frakkinn Zinedine Zidane kveðst hafa hætt störfum sem knattspyrnustjóri Real Madrid vegna þess að forráðamenn félagsins hefðu ekki treyst sér til að byggja upp liðið á nýjan leik.
Zidane hefur unnið Meistaradeild Evrópu þrisvar og spænska meistaratitilinn tvisvar sem stjóri Real Madrid en hætti störfum í síðustu viku eftir að ljóst varð að félagið ynni engan titil á keppnistímabilinu 2020-21. Liðið varð í öðru sæti 1. deildarinnar, var slegið út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og féll út fyrir C-deildarliðinu Alcoyano í 32ja liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar.
Zidane birti opið bréf í íþróttadagblaðinu AS og sagði þar: „Ég er á förum þar sem félagið ber ekki lengur til mín það traust sem ég þarf á að halda og styður mig ekki til að byggja upp til meðallangs eða langs tíma. Ég hefði viljað að samskipti mín við félagið og forseta þess undanfarna mánuði hefðu verið aðeins öðruvísi en þegar aðrir þjálfarar hafa átt í hlut.
Það var sárt að lesa í blöðunum eftir ósigur að ég yrði rekinn ef við ynnum ekki næsta leik. Það særði mig og allt liðið því þessi skilaboð sem var greinilega lekið til fjölmiðlanna af ásettu ráði höfðu neikvæð áhrif á liðið, gerðu menn óörugga og leiddu til misskilnings."