Spænski varnarmaðurinn Eric Garcia hefur skrifað undir samning við spænska knattspyrnufélagið Barcelona. Samningurinn gildir til ársins 2026. Garcia kemur til Barcelona frá Manchester City á frjálsri sölu eftir að samningur hans við enska félagið rann út.
Varnarmaðurinn er uppalinn hjá Barcelona en hann kom til City árið 2017. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir City árið 2018, þá aðeins 17 ára.
Garcia hefur lengi verið á óskalista Barcelona því félagið bauð City 15 milljónir punda fyrir leikmanninn á síðasta ári, en enska félagið hafnaði tilboðinu. Garcia er annar leikmaðurinn í vikunni sem kemur til Barcelona frá Manchester City því Sergio Agüero fór sömu leið í gær.
Barcelona er ekki hætt að fá leikmenn frá ensku úrvalsdeildinni því Georginio Wijnaldum mun að öllum líkindum semja við félagið á næstu dögum, en hann hefur leikið með Liverpool frá árinu 2016.