Knattspyrnumaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen samdi í dag við sænska félagið Elfsborg í Svíþjóð frá Spezia á Ítalíu. Hann var að láni hjá OB í Danmörku á síðustu leiktíð.
Sveinn skoraði eitt mark í þrettán leikjum með OB á síðustu leiktíð og tvö mörk í 23 leikjum með Spezia í B-deild Ítalíu, en liðið leikur nú í A-deildinni.
Elfsborg er í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 23 stig eftir 13 leiki. Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson kom til félagsins frá Gróttu í sumar og hefur verið varamarkvörður liðsins að undanförnu.