Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson hefur samið við pólska úrvalsdeildarfélagið Lech Poznan um starfslok eftir aðeins rúmlega hálfs árs dvöl hjá félaginu.
Báðir aðilar féllust á að rifta samningnum í dag og er Aroni því frjálst að róa á önnur mið.
Hann gekk til liðs við Lech Poznan í febrúar á þessu ári eftir að samningur hans við sænska úrvalsdeildarfélagið Hammarby rann sitt skeið.
Aron er meiddur á öxl sem stendur og getur samið við nýtt félag á næstu vikum eða mánuðum þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn loki víðs vegar um Evrópu í kvöld þar sem hann er ekki lengur samningsbundinn Lech Poznan.
Aron skoraði tvö mörk í níu deildarleikjum fyrir Lech Poznan á síðasta tímabili en var ekki búinn að koma við sögu á yfirstandandi tímabili.