Aron Sigurðarson fór á kostum og skoraði fjögur mörk í 8:0 stórsigri Horsens gegn Varde í annarri umferð dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í dag.
Horsens leikur í B-deild Danmerkur eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili á meðan Varde leikur í E-deild.
Styrkleikamunurinn á liðunum kom fljótt í ljós því Horsens keyrði yfir heimamenn í Varde með því að skora fjögur mörk á innan við 20 mínútum.
Magnus Jensen gaf tóninn með marki á 4. mínútu og Lirim Qamili tvöfaldaði forystuna á 10. mínútu.
Þá var röðin komin að kantmanninum knáa, Aroni Sigurðarsyni. Hann skoraði þriðja mark liðsins á 14. mínútu og fjórða mark liðsins og annað mark Arons kom svo á 18. mínútu.
4:0 voru hálfleikstölur og fullkomnaði Aron þrennuna á 56. mínútu og kom Horsens í 5:0.
Sjötta marki liðsins bætti Aron svo við á 80. mínútu og hann þar með kominn með fernu. Mínútu síðar skoraði Jannik Pohl sjöunda markið.
Á 88. mínútu skoraði Mikkel Lassen svo áttunda markið.
Þar með var markaveislunni lokið og afar auðveldur 8:0 sigur Horsens í höfn. Liðið er þar með komið áfram í þriðju umferð danska bikarsins.